Öll íslensku álverin eru komin með ASI-vottun og standast þannig hæstu alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til sjálfbærrar framleiðslu áls. Þetta er meðal þess sem kemur fram á ársfundi Samáls sem sendur verður út klukkan 14 í dag, en yfirskriftin er Sóknarfæri í loftslagsmálum og má horfa á útsendinguna hér að neðan.

ASI eru alþjóðleg samtök um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu í áliðnaði og er Fiona Solomon, framkvæmdastjóri ASI, ein þeirra sem tala á ársfundinum. Þá kemur fram í máli Eoin Dinsmore, sem er yfir greiningarsviði áliðnaðar hjá CRU að vaxandi eftirspurn sé eftir ASI-vottuðum álafurðum, en á meðal þeirra sem gera kröfu um það eru Mercedes, BMW, Damm og Nestle. Norðurál tilkynnti um það í febrúar síðastliðnum að það hefði gengið frá sölusamningi um 150 þúsund tonn af Natur‐Al TM áli, sem vottað er af ASI, yfir fimm ára tímabil til austurríska framleiðslufyrirtækisins Hammerer Aluminium Industries.

Á ársfundi Samáls ræðir Gunnar Guðlaugsson, stjórnarformaður Samáls og forstjóri Norðuráls stöðu og horfur í áliðnaði og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytur ávarp.

Í pallborði um sóknarfæri í umhverfismálum verða Guðrún Þóra Magnúsdóttir, leiðtogi umhverfismála og rannsóknastofu hjá Isal, Steinunn Dögg Steinsen, framkvæmdastjóri umhverfis- og öryggissviðs Norðuráls og Fiona Solomon, framkvæmdastjóri ASI (Aluminium Stewardship Initiative).

Í pallborði um samkeppnishæfni íslenskrar álframleiðslu verða Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Guðrún Sævarsdóttir, dósent í verkfræði við Háskólann í Reykjavík, Bjarni Már Gylfason, leiðtogi samfélagsmála og samskipta hjá Isal og Eoin Dinsmore, yfirmaður greiningarsviðs áliðnaðar hjá CRU.

Nýr tónheimur opnast með alúfóni, nýju hljóðfæri Sinfóníunnar, og innlit verður í framleiðslu á hringrásarvænum vörum hönnunarfyrirtækisins Fólks í Reykjavík.

Fundarstjóri er Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, og pallborðum stýrir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls.