*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 11. maí 2021 13:29

Beint: Ársfundur Samáls

Á ársfundi Samáls, sem hefst kl. 14, verður meðal annars sagt frá því að öll íslensku álverin eru komin með ASI-vottun.

Ritstjórn
Frá ársfundi Samáls fyrir þremur árum síðar. Vegna sóttvarnarráðstafanna verður fundurinn í gegnum fjarfundabúnað í þetta skiptið.
Haraldur Guðjónsson

Öll íslensku álverin eru komin með ASI-vottun og standast þannig hæstu alþjóðlegu kröfur sem gerðar eru til sjálfbærrar framleiðslu áls. Þetta er meðal þess sem kemur fram á ársfundi Samáls sem sendur verður út klukkan 14 í dag, en yfirskriftin er Sóknarfæri í loftslagsmálum og má horfa á útsendinguna hér að neðan.

ASI eru alþjóðleg samtök um umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu í áliðnaði og er Fiona Solomon, framkvæmdastjóri ASI, ein þeirra sem tala á ársfundinum. Þá kemur fram í máli Eoin Dinsmore, sem er yfir greiningarsviði áliðnaðar hjá CRU að vaxandi eftirspurn sé eftir ASI-vottuðum álafurðum, en á meðal þeirra sem gera kröfu um það eru Mercedes, BMW, Damm og Nestle. Norðurál tilkynnti um það í febrúar síðastliðnum að það hefði gengið frá sölusamningi um 150 þúsund tonn af Natur‐AlTMáli, sem vottað er af ASI, yfir fimm ára tímabil til austurríska framleiðslufyrirtækisins Hammerer Aluminium Industries.

Á ársfundi Samáls ræðir Gunnar Guðlaugsson, stjórnarformaður Samáls og forstjóri Norðuráls stöðu og horfur í áliðnaði og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra flytur ávarp.

Í pallborði um sóknarfæri í umhverfismálum verða Guðrún Þóra Magnúsdóttir, leiðtogi umhverfismála og rannsóknastofu hjá Isal, Steinunn Dögg Steinsen, framkvæmdastjóri umhverfis- og öryggissviðs Norðuráls og Fiona Solomon, framkvæmdastjóri ASI (Aluminium Stewardship Initiative).

Í pallborði um samkeppnishæfni íslenskrar álframleiðslu verða Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, Guðrún Sævarsdóttir, dósent í verkfræði við Háskólann í Reykjavík, Bjarni Már Gylfason, leiðtogi samfélagsmála og samskipta hjá Isal og Eoin Dinsmore, yfirmaður greiningarsviðs áliðnaðar hjá CRU.

Nýr tónheimur opnast með alúfóni, nýju hljóðfæri Sinfóníunnar, og innlit verður í framleiðslu á hringrásarvænum vörum hönnunarfyrirtækisins Fólks í Reykjavík.

Fundarstjóri er Dagmar Ýr Stefánsdóttir, yfirmaður samskipta- og samfélagsmála hjá Alcoa Fjarðaáli, og pallborðum stýrir Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls. 

Stikkorð: Samál