*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 20. maí 2020 09:30

Blaðamannafundur Seðlabankans í beinni

Ásgeir Jónsson, Rannveig Sigurðardóttir og Þórarinn G. Pétursson fara yfir nýja hagspá og stýrivaxtalækkun Seðlabankans.

Ritstjórn
Rannveig Sigurðardóttir og Ásgeir Jónsson seðlabankastjórar.
Gígja Einars

Stýrivextir standa nú í 1% eftir 0,75% stýrivaxtalækkun peningastefnunefndar í morgun. Á fundi með blaðamönnum og greiningaraðilum sem hefst klukkan tíu ræða Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri og Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans yfirlýsingu peningastefnunefndar og gera grein fyrir efni Peningamála.

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans eru horfur á 8% samdrætti landsframleiðslu í ár. Þar vegur þyngst yfir 80% fækkun í komum ferðamanna til landsins. Útlit er fyrir að atvinnuleysi aukist mikið og fari í um 12% á þriðja fjórðungi ársins en verði tæplega 9% á árinu öllu. Samkvæmt spá bankans taka efnahagsumsvif smám saman að færast í eðlilegt horf á seinni hluta þessa árs og spáð er tæplega 5% hagvexti á næsta ári.

Samkvæmt spá Seðlabankans eykst verðbólga lítillega á næstu mánuðum vegna áhrifa gengislækkunar krónunnar. Aukinn slaki í þjóðarbúinu mun hins vegar vega þyngra þegar líða tekur á þetta ár og horfur eru á að verðbólga verði undir 2% á seinni hluta spátímans. 

Fylgjast má með fundinum sem hefst klukkan 10 í spilaranum hér að neðan: