*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 20. júlí 2017 09:33

Beint flug frá París og London

Andri M. Ingólfsson, hjá Primera Air, segir félagið ætla að fljúga til þriggja nýrra áfangastaða í Evrópu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Primera Air hefur tilkynnt um þrjá nýja brottfararstaði í Evrópu sem flogið verður til frá og með apríl 2018 í fréttatilkynningu.

Um er að ræða London (Stanstead, STN), París (Charles de Gaulle, CDG) og Birmingham (BHX) og verður flogið til New York (EWR) og Boston Logan (BOS). Í lok sumars verður svo tilkynnt um tvær nýjar flugleiðir yfir Atlantshafið frá þessum sömu brottfararstöðum.

„Við erum stolt af að kynna nýja áfangastaði  og nýjar flugleiðir til Bandaríkjanna. Með glænýju Airbus A321neo, getum við þjónustað flugleiðir sem einungis breiðþotur hafa flogið fram til þessa,“ segir Andri M. Ingólfsson, eigandi og stjórnarformaður Primera Air.

„Með þessari nýju kynslóð flugvéla getum við boðið farþegum sem vilja ferðast til Bandaríkjanna frá Frakklandi og Bretlandi fargjöld á betri kjörum en áður hafa þekkst. Á sama tíma hlökkum við til að bjóða upp á vöru og þjónustu sem sameinar lágt verð og gæði sem hentar bæði farþegum sem eru á leið í fríið og þeim sem ferðast vegna vinnu.“

Nýja flugvélin skiptist í tvö rými – fulla þjónustu í Premium og lægstu verð í Economy. Allir farþegar munu hafa aðgang að þráðlausu neti og hafa möguleikann á því að hlaða raftækin sín um borð.

Flugferðir til Bandaríkjanna munu hefjast í apríl 2018 og flogið verður allt árið um kring. Primera Air mun bjóða upp á daglegar ferðir til New York (EWR) og fjögur vikuleg flug til Boston frá öllum þremur brottfararstöðunum. Sala byrjar frá og með 20. júlí 2017 og ódýrustu fargjöldin verða til sölu á www.primeraair.com.

Á næstu tveimur árum mun Primera Air stækka við sig  á núverandi flugvöllum og hefja flug frá nýjum stöðum og tengja þannig fleiri flugvelli saman en áður hefur verið gert, þökk sé flugflotanum sem Primera Air hefur yfir að ráða og tuttugu nýjum Boeing MAX 9 ER sem eru í pöntunarferli. Fleiri nýjar flugleiðir yfir Atlantshafið eru á stefnuskránni.

Primera Air er með áætlunarflug til yfir 70 flugvalla í Evrópu. Flugfélagið er með bækistöðvar í Danmörku og Lettlandi og er hluti af Primera Travel Group sem rekur ferðaskrifstofur og leiðsögufyrirtæki í Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Finnlandi, Íslandi og Eistlandi.