Rússar hafa tekið þeirri beiðni Íslendinga vel að bæta flugleiðinni ?Keflavík-Pétursborg? í viðauka við loftferðasamning sem hefur verið í gildi milli landanna í nokkur ár. Stefnt er að því að ljúka því sem fyrst. Þetta kom fram á fundi í vikunni á milli íslenskra og rússneskra embættismanna um viðskiptamál í Moskvu.

Fjárfestingasamningur, loftferðasamningar og möguleiki á rammasamningi um fríverslun milli Rússlands og EFTA var meðal helstu málefna á fundinum. Nú standa einnig yfir samningaviðræður milli Íslands og Rússlands vegna aðildar Rússlands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO), þar sem stefnt er að verulega bættum viðskiptakjörum milli landanna.

Á fundinum var einnig rætt um flug íslenskra flugvéla yfir rússneskt landsvæði. Rússnesk loftferðayfirvöld hafa tekið 10.000 bandaríkjadali fyrir hvert yfirflug og verið gagnrýndir harðlega fyrir.

Í vor gerðu ESB og Rússland með sér samkomulag um að gjaldtakan verði byggð á raunkostnaði, hún verði gerð gagnsærri og henni beitt án mismununar. Samkomulagið gengur í gildi eigi síðar en árið 2013. Á fundinum var óskað eftir því að íslensk flugfélög nytu sömu kjara og evrópsk
flugfélög að því er varðarflug í rússneskri lofthelgi. Málefni þetta heyrir ekki undir samninga Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og því verður að semja um yfirflugið beint milli ríkjanna.