Sendinefnd á vegum íslenska utanríkisráðuneytisins fundaði nýlega með fulltrúum rússneska samgönguráðuneytisins. Unnið er nú að því af hálfu Íslands að bæta St. Pétursborg inn sem áfangastað í loftferðasamning milli Íslands og Rússlands. Sem stendur kveður samningurinn eingöngu á um að íslensk flugfélög geti flogið beint til Moskvu, en verði St. Pétursborg bætt inn í samninginn verður einnig hægt að fljúga beint þangað frá Íslandi, en mikill áhugi hefur verið hér á landi á ferðalögum til borgarinnar.

Í frétt í Stiklum, vefriti viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins kemur fram að Rússarnir tóku vel í þessar hugmyndir og er stefnt að því að funda aftur um málið í lok janúar 2006.

Jafnframt undirrituðu fulltrúar landanna tveggja yfirlýsingu um yfirflugsréttindi. Evrópusambandið hefur verið í viðræðum við Rússa um gjaldtöku vegna yfirflugs og felur samkomulag Íslands og Rússlands í sér að Ísland muni ekki greiða meira fyrir flug í rússneskri lofthelgi en vélar frá löndum Evrópusambandsins.

Loks var boðað til fundar í íslenska sendiráðinu í Moskvu með fulltrúum sjávarútvegsstofu Rússlands vegna vanefnda skipafyrirtækisins Karelrybflot sem fékk lán á Íslandi með ríkisábyrgð og hefur ekki staðið skil á greiðslum. Benedikt Jónsson, sendiherra Íslands í Moskvu, Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneytinu, og Grétar Már
Sigurðsson, skrifstofustjóri viðskiptaskrifstofu, sátu fundinn. Ákveðið var að ræða þessi mál og skuldauppgjör fyrirtækisins frekar milli landanna á næstunni segir í Stiklum.