Beint áætlunarflug Icelandair til St. Pétursborgar í Rússlandi hófst í dag, 1. júní. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint áætlunarflug milli Íslands og Rússlands en flogið verður tvisvar í viku til 17. september.

Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, segir í tilkynningu að hugmyndin með fluginu sé að opna Icelandair og íslenskri ferðaþjónustu nýja leið inn á Rússlandsmarkað, sem sé afar stór og vaxandi markaður. Í tilkynningu frá Icelandair segir að rússneskum ferðamönnum hafi fjölgað jafnt og þétt hér á landi sem og í öðrum Evrópulöndu á undanförnum árum, sem skapi grundvöll fyrir beinu áætlunarflugi.

„Með fluginu nýtir Icelandair einnig þá möguleika sem felast í leiðakerfi félagsins og tengiflugi milli Rússlands og Bandaríkjanna. Flug frá St. Pétursborg til Íslands tekur tæplega 4 klukkustundir og tímamunur milli borgarnnar og Íslands er sömuleiðis 4 klukkustundir. Því er unnt að fljúga kl. 09.40 að morgni frá St. Pétursborg og lenda á Keflavíkurflugvelli kl. 09:40 að íslenskum tíma,“ segir ennfremur í tilkynningunni.