Hlaupum hraðar – slítum fjötrana og sækjum tækifærin er yfirskrift Iðnþings Samtaka iðnaðarins (SI) sem sent verður beint út frá Silfurbergi í Hörpu í dag 4. mars kl. 13.00-15.00. Samhliða þinginu er gefin út skýrsla með sömu yfirskrift þar sem samtökin leggja fram 33 tillögur að umbótum sem miða að því að hraða uppbyggingu.

Á Iðnþingi 2021 verður kastljósinu beint að þeim fjötrum sem slíta þarf með markvissum hætti á næstu 12 mánuðum til að fyrirtæki geti skapað ný, eftirsótt störf og aukin verðmæti. Sækja þarf tækifærin með frekari umbótum og markaðssókn til að skapa auknar gjaldeyristekjur. Með því að slíta fjötrana getum við hlaupið hraðar.

Dagskrá Iðnþings er eftirfarandi:

  • Fundarstjórn – Logi Bergmann
  • Ávarp – Árni Sigurjónsson, formaður SI
  • Ávarp – Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Eflum samkeppnishæfni – umræður – Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, Orri Hauksson, forstjóri Símans, og Tor Arne Berg, forstjóri Fjarðaáls
  • Hröðum uppbyggingu – umræður – Ásdís Helga Ágústsdóttir, arkitekt hjá Yrki, Friðrik Á. Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, Hjörtur Sigurðsson, framkvæmdastjóri VSB, Sigrún Melax, gæðastjóri JÁVERK, og Svanur Karl Grjetarsson, framkvæmdastjóri Mótx
  • Sækjum tækifærin – umræður – Fida Abu Libdeh, forstjóri GeoSilica, Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, Lilja Ósk Snorradóttir, framkvæmdastjóri Pegasus, og Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP
  • Samantekt – Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI

Óbreytt stjórn Samtaka Iðnaðarins

Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun var tilkynnt um úrslit kosninga til stjórnar. Alls gáfu sjö kost á sér til almennrar stjórnarsetu og var kosið um fjögur sæti. Þeir sem sátu fyrir í stjórninni og buðu sig fram hlutu allir kosningu. Þeir sem setjast í stjórn Samtaka iðnaðarins til næstu tveggja ára eru:

  • Ágúst Þór Pétursson, Mannvit
  • Guðrún Halla Finnsdóttir, Norðurál
  • Magnús Hilmar Helgason, Launafl
  • Sigurður R. Ragnarsson, ÍAV

Fyrir í stjórn Samtaka iðnaðarins eru:

  • Árni Sigurjónsson, formaður
  • Arna Arnardóttir, gullsmiður
  • Egill Jónsson, Össur
  • Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, CRI
  • Valgerður Hrund Skúladóttir, Sensa
  • Vignir Steinþór Halldórsson, Mótx

Auka þarf gjaldeyristekjur um 1,4 milljarða á viku

Í skýrslu samtakkana segir að ef atvinnuleysi eigi að lækka niður í í 3,5% árið 2025, viðlíka hlutfall og var á árinu 2019, þurfi árlegan hagvöxt að jafnaði 4,2% á næsta kjörtímabili. Fjölga þurfi störfum á tímabilinu um ríflega 29 þúsund og landsframleiðsla þurfi að aukast um 545 milljarða króna.

„Rétt er að leggja áherslu á að þessi verðmætasköpun og raunar fjölgun starfa þarf að eiga sér stað í einkageiranum og með aukningu gjaldeyristekna.“

Alls þurfi gjaldeyristekjur að aukast um 300 milljarða króna yfir kjörtímabilið, eða sem nemur ríflega 1,4 milljarði króna á viku. Takist þetta muni efnahagsleg lífsgæði landsmanna aukast á tímabilinu og landsframleiðsla á mann verða meiri á árinu 2025 en hún var árið 2019, fyrir efnahagsáfallið sem fylgdi heimsfaraldrinum.

Leið skattlagningar mun hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina

„Á næstu 12 mánuðum verða teknar ákvarðanir sem munu ráða miklu um efnahagslega framtíð á Íslandi næstu ár og áratugi. Kólnun hagkerfisins var staðreynd fyrir heimsfaraldur kórónuveiru. Farsóttin reynist hinu opinbera mjög kostnaðarsöm og nemur aukning skulda hátt í milljarði króna á hverjum virkum degi,“ segir í upphafi skýrslu SI.

„Eftir skynsama hagstjórn undanfarinna ára er ríkissjóður vel í stakk búinn að taka á sig auknar byrðar en að lokum kemur að skuldadögum. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – er farsælasta leiðin. Leið skattlagningar mun hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina."