Niðurstöður Íslensku ánægjuvogarinnar verða kynntar á viðburði Stjórnvísi sem hefst kl. 08:30 í dag. Þetta er í 23. skiptið sem ánægja íslenskra fyrirtækja er mæld og að þessu sinni verða birtar niðurstöður fyrir tólf atvinnugreinar. Beint streymi af viðburðinum er að finna hér að neðan.

„Það sem gerir ánægjuvogina einstaka er að enginn veit hvenær mælingin fer fram né hvaða markaðir eru mældir hverju sinni,“ segir í tilkynningu Stjórnvísi.

Íslenska ánægjuvogin er verkefni á vegum Stjórnvísi en rannsóknin var framkvæmd af Prósent. Markmið verkefnisins er að láta fyrirtækjum í té samræmdar mælingar á ánægju viðskiptavina en einnig nokkrum öðrum þáttum sem hafa áhrif á hana s.s. ímynd, mat á gæðum og þjónusta. Stjórnvísi segir að mæling sem þessi sé talin mjög mikilvæg þar sem rannsóknir hafi sýnt fram á að því ánægðari sem viðskiptavinir fyrirtækis eru því betri afkomu getur fyrirtækið gert sér vonir um.