Kynningarfundur vegna hlutafjárútboðs og skráningar Síldarvinnslunnar á markað hófst klukkan 8:30 í dag í Hörpu.

Útboðið hefst kl. 10.00 mánudaginn 10. maí 2021 og lýkur kl. 16.00 miðvikudaginn 12. maí 2021. Til stendur að bjóða að minnsta kosti 26,3% hlut í félaginu til sölu sem er tæplega 25 milljarða króna virði hið minnsta. Lægst tilboð er 100 þúsund krónur í tilboðsbók A en 20 milljónir króna í tilboðsbók B. Viðskipti með félagið í Kauphöllinni eiga að hefjast 27. maí.

Félagið er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og hagnaðist um ríflega 5 milljarða króna í fyrra. Markaðsvirði félagsins samkvæmt neðra verðbili útboðsins er um 93,5 milljarðar króna. Stærstu seljendur í útboðinu eru Samherji og Kjálkanes ehf., sem er í eigu sömu aðila og eiga útgerðarfélagið Gjögur, en samtals munu félögin tvö áfram eiga meirihluta í félaginu eftir útboðið.

Fundinum er lokið en hægt er að skoða fjárfestakynningu á Síldarvinnslunni og skráningarlýsingu félagsins hér.