Í tilkynningu segir að Snjallræði sé átta vikna samfélagshraðall sem styður við teymi á sviði samfélagslegra lausna og frumkvöðlastarfsemi og byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Beint streymi af lokadeginum má finna hér neðst í fréttinni.

Lokadagur Snjallræðis er hluti af nýsköpunarvikunni og munu frumkvöðlar stíga á stokk sem eiga það sameiginlegt að vilja leiða mikilvægar samfélagsbreytingar. Alls bárust 67 umsóknir um þátttöku í Snjallræði í ár. Hraðallinn hófst mánudaginn 1. febrúar en dagurinn í dag markar lokahnykkinn á átta vikna vegferð.

Eftirtalin teymi tóku þátt í hraðlinum í ár:

Bambahús
Gróðurhús sem gerð eru úr bömbum taka strax á endurvinnslu, nýsköpun, verðmætasköpun, atvinnuþróun, sjálfbærni, næringu, umhverfisvernd og henta í alla ræktun.

Tæknivinur
Tæknivinur er þjónusta sem miðar að því að leiða saman eldri borgara, sem þarfnast ráðgjafar í tæknilegum málum og yngra fólk (tæknivini) sem býr að þekkingu og kunnáttu á því sviði.

Electra
Markmið Electra er að bæta þjónustu við einstaklinga sem glíma við fíknisjúkdóma með tilkomu hugbúnaðar. Electra hvetur, leiðbeinir og styður við einstaklinga fyrir og eftir meðferð.

COMAS
Markmiðið með heimaræktunarverkefni COMAS er að skapa samfélag einstaklinga sem vilja rækta og framleiða næringarríkan mat með sameiginlegu átaki og með aðstoð nýjustu tækni.

WULL Project
WULL Project nýtir vannýtta ull sem annars skilar engu virði til bænda og með því að leggja áherslu á náttúrulega eiginleika ullarinnar vill WULL Project breyta "göllum" hennar í kosti.

Greenfo
Greenfo er að þróa hugbúnað sem er leiðarvísir fyrirtækja í sjálfbærni, kortleggur allt kolefnissporið og setur fram markvissar aðgerðir til þess að draga úr því, með því að nýta upplýsingar sem eru þegar til staðar hjá öllum fyrirtækjum.

HEIMA app
HEIMA er smáforrit sem sér um verkaskiptingu og hugræna byrði heimilisins með jafnrétti að leiðarljósi.

SoGreen
Verkefnið miðar að því að brúa bilið milli fyrirtækja, sem vilja kolefnisjafna rekstur sinn með því að fjárfesta í verkefnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, og samtaka sem leita eftir fjármagni til verkefna sem tryggja menntun stúlkna.