Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Rannveig Sigurðardóttir varaseðlabankastjóri sátu í morgun fyrir svörum á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis. Fundurinn hófst klukkan níu og en hægt er að sjá upptöku af fundinum í spilaranum hér að neðan.

Lögum samkvæmt á peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands að gefa Alþingi skýrslu um störf sín tvisvar á ári og að ræða skuli efni skýrslunnar í þingnefnd.

Peningastefnunefnd skilaði skýrslunni 20. janúar. Í gær var svo greint frá því að stýrivextir hefðu verið lækkaðir um 0,25 prósentustig í 2,75% og hafa þeir aldrei verið lægri. Hagvöxtur síðasta árs var meiri en gert var ráð fyrir í fyrri spám Seðlabankans en hagvaxtarspá þessa árs og næsta var lækkuð, meðal annars versnandi stöðu útflutningsatvinnuvega og fjármögnunarskilyrða innlendra fyrirtækja.

Sjá einnig: „Ekki mátti miklu muna að illa færi“

Í skýrslu Gylfa Zöega sem situr í peningastefnunefnd kom fram að stjórnvöld og Seðilbankinn hefðu brugðist við aðstæðum með því að auka útgjöld og lækka stýrivexti. Til framtíðar yrði bætt lífskjör þó að byggjast á frumkvæði einkageirans. Þá benti hann á að laun nú væru orðin mjög há á flesta mælikvarða. Í niðursveiflu mætti búast við að störf yrðu flutt úr landi eða leyst af hólmi með nýrri tækni, fólki yrði sagt upp og einhver fyrirtæki yrðu gjaldþrota.

Horfa má á fundinn í spilaranum hér að neðan: