Sjálfbærnidagur Landsbankans fer fram í Grósku í dag. Tilgangurinn með fundinum er veita innsýn í hvað beri hæst í málaflokki sjálfbærni og gefa áhorfendum skýrari hugmyndir um næstu skref í sjálfbærnimálum fyrir eigin fyrirtæki og fjárfestingar. Beint streymi af fundinum, sem hefst kl. 9:00, má finna hér að neðan.

Aðalfyrirlesari á sjálfbærnidegi Landsbankans er Tjeerd Krumpelman frá ABN Amro banka í Hollandi. Hann hefur yfir 20 ára reynslu í fjármálageiranum og síðustu 8 ár hefur hann farið fyrir sjálfbærnimálum ABM Amro banka í Hollandi. Hann leiðir teymi sem veitir sjálfbærniráðgjöf og ber ábyrgð á ófjárhagslegri upplýsingagjöf bankans, sem og áhrifaskýrslum.

Tjeerd er einnig virkur þátttakandi í frumkvöðlaverkefnum á sviði sjálfbærni og má þar helst nefna að hann var meðal stofnenda PCAF (e. Partnership for Carbon Accounting Financials) en það er verkefni sem hefur búið til samræmdan staðal fyrir fjármálafyrirtæki til að mæla óbeina losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi sinni.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setur fundinn og fjallar um hlutverk og ábyrgð fjámálafyrirtækja og bankans í sjálfbærni. Framkvæmdastjórar og fulltrúar fyrirtækja í sjávarútvegi, mannvirkjagerð og skipaflutningum fara yfir hvað hefur virkað hjá þeim í þeirra sjálfbærnivinnu og hvað þurfi að gera betur. Einnig verður farið yfir nýja sýn á hagkerfið sem byggir á sjálfbærni.

Dagskrá:

  • Setning: Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans.
  • Fjárfestingar og fyrirtækjarekstur fyrir auðgandi framtíð: Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands.
  • Creating value for stakeholders through impact assessment: Tjeerd Krumpelman, alþjóðasviðsstjóri í sjálfbærni hjá ABN Amro.
  • Sjálfbær sjávarútvegur - tækifæri og áskoranir: Runólfur V. Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur.
  • Vistvænni mannvirkjagerð - út frá sjónarhóli verktaka: Sigrún Melax, gæðastjóri Jáverk ehf.
  • Bætt orkunýting í skipaflutningum: Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri Cargow.

Fundarstjóri er Aðalheiður Snæbjarnardóttir, sjálfbærnistjóri Landsbankans.