Uppskerudagur viðskiptahraðalsins Til sjávar og sveita fer fram í dag, 27. nóvember. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með ávarp og í kjölfarið munu níu sprotafyrirtæki á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðar kynna viðskiptahugmyndir sínar.

Viðskiptahraðallinn Til sjávar og sveita: frá hugmynd í hillu, býður upp á vettvang til vöruþróunar fyrir verkefni sem snúa að hátækni í matvælaiðnaði, nýjum lausnum í landbúnaði og haftengdum iðnaði og betri nýtingu hráefna þar sem sjálfbærni og nýsköpun eru höfð að leiðarljósi.

Hraðallinn stendur yfir í tíu vikur og fer fram í annað sinn í ár, en alls hafa borist um 140 umsóknir í verkefnið. Allt að tíu fyrirtæki eru valin til þátttöku ár hvert. Þátttakendur fá aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu og njóta leiðsagnar frumkvöðla, fjárfesta og annarra sérfræðinga auk fræðslu og þjálfunar.

Umsjón með verkefninu er í höndum Icelandic Startups í samstarfi við Íslenska sjávarklasann. Bakhjarlar verkefnisins eru í Matarauður Íslands, Nettó, Landbúnaðarklasinn og Atvinnuvega-og nýsköpunarráðuneytið. Verkefnið er einnig unnið í samstarfi við Matís og Eldstæðið.

Sjá má útsendingu af uppskerudeginum hér að neðan: