Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa gripið til þvingunaraðgerða gegn nánum samstarfsmönnum Vladimir Pútín, forseta Rússlands, vegna fyrirætlunar Rússa að innlima Krímskaga. Í aðgerðunum felst að viðkomandi einstaklingar geta ekki fært fjármuni á milli gjaldeyrisreikninga og skipt peningum yfir í dollara, eignir þeirra frysta í Bandaríkjunum og þeim meinað að stunda viðskipti í Bandaríkjunum.

Breska ríkisútvarpið ( BBC ) fjallar ítarlega um málið.

Einstaklingarnir eru 20 talsins. Þar á meðal eru Sergei Ívanov, starfsmannastjóri Pútíns, auðkýfingarnir Arkadí Rótenberg og Gennadý Tímsjenkó sem eru nánir samstarfsmenn Pútíns, Vladimír Jakúnin, formaður stjórnar rússnesku járnbrautanna og fleiri. Þá heyrir Rossiya-banki undir viðskiptaþvingar Bandaríkjamanna en það mun vera viðskiptabanki margra ráðamanna í Rússlandi.