Neytendasamtökin skora á samkeppnisyfirvöld að beita refsiákvæðum samkeppnislaga gagnvart einstaklingum í auknum mæli frekar en á fyrirtæki. Þetta kemur fram í ályktun sem samtökin samþykktu á þingi sínu um helgina.

Samtökin telja að með þessari áherslubreytingu yrði fælingarmáttur samkeppnislaga miklu meiri en nú er. Með því að beita fyrirtæki sem séu í einokunarstöðu háum sektum sé sektunum velt beint út í verðlagið. Slíkt skaði því neytendur frekar en þá sem eigi skömmina.

Þá fordæma samtökin stefnu stjórnvalda að koma í veg fyrir samkeppni á búvörumarkaði. „Stjórnvöld ættu frekar að stuðla að heilbrigðri samkeppni en að hindra eðlilega virkni markaðarins.“ Því er þess krafist að Alþingi afnemi allar undanþágur mjólkuriðnaðarins.