Beiting breskra stjórnvalda á hryðjuverkalöggjöf landsins til þess að frysta eigur Landsbankans sýnir hvernig hægt sé að misbeita slíkri löggjöf til þess að ná fram öðrum markmiðum en lagt var upp með.

Þetta hefur Dow Jones-fréttaveitan eftir Martin Scheinin, sérstaks fulltrúa Sameinuðu þjóðanna í málefnum sem tengjast mannréttindum og baráttunni gegn hryðjuverkum.

Hann segir að aðgerð breskra stjórnvalda sýni að í hryðjuverkalöggjöfum séu heimildir sem hægt er að beita í málaflokkum sem hafa ekkert með baráttuna gegn skipulögðum hryðjuverkasamtökum að gera.

Scheinin segir að viðbrögð stjórnvalda í London við hruni Landsbankans sýni að löggjöfin veiti þeim svigrúm til neyðarúrræða í málaflokkum sem ekki voru hugsaðir sem hluti af hryðjuverkavánni.

Dow Jones hefur eftir Scheinin að auðveldlega sé hægt að nota slíkar heimildir til þess að koma böndum á mótmæli stjórnarandstöðu og til þess að kveða niður mótmæli. Merki þessa sjáist í þeim löndum þar sem að hryðjuverkalöggjöfinni er beitt með víðtækum hætti og fjöldi stjórnvaldsaðgerða er afsökuð með vísan til slíkra laga.