Belgíski bjórframleiðandinn InBev hefur nú að eigin sögn gengið frá kaupum á bandaríska bjórrisanum Anheuser-Busch (sem framleiðir Budweiser bjórinn) fyrir um 52 milljarða Bandaríkjadali.

Þetta kemur fram á fréttavef Reuters.

Í tilkynningu frá InBev kemur fram að frá og með deginum í dag heiti félagið formlega Anheuser-Busch InBev en félagið verður eitt af stærri bruggframleiðendum heims.

Meðal þekktra vörumerkja InBev eru Stella Artois og Beck‘s bjórinn og nú bætist Budweiser við.

Yfirtaka Belganna hefur valdið nokkrum usla í Bandaríkjunum og hafa ýmsir stjórnmálamenn meðal annars sagt að þeir myndu beita sér fyrir því að Anheuser-Busch verði aldrei selt erlendu félagi. Þeir hafa augljóslega ekki haft árangur sem erfiði.

Forsvarsmenn InBev hafa þó lofað því að höfuðstöðvar framleiðslu Budweiser bjórsins verði áfram í St. Louis í Missouri fylki auk þess sem dreifingarstöðvum verður ekki lokað eins og margir óttuðust.

Samkvæmt áætlunum mun hið nýja félag mun selja bjór fyrir rúma 36 milljarða dali árlega í Bandaríkjunum einum saman. Það jafngildir um 46 milljörðum lítra af bjór.