Belgíska ríkið hefur kynnt til sögunnar aðgerðir til bjargar Fortis-bankanum. Hollenska ríkið þjóðnýtti hollenska hluta bankans í vikunni.

BNP Paribas bankinn mun í samvinnu við belgíska ríkið tryggja stöðu Fortis. Belgíska ríkið þjóðnýtti belgíska hluta Fortis fyrir 4,7 milljarða evra, og á ríkið eftir það 99,93% hlut í bankanum. Í framhaldinu selur belgíska ríkið BNP Paribas 75% af sínum hlut í Fortis gegn því að BNP fjármagni 8,25 milljarða evra hlutafjáraukningu Fortis.

Hluti eigna Fortis, að andvirði 10,4 milljarða evra, verður svo færður undir nýtt félag sem verður að tæplega fjórðungi í eigu ríkisins, BNP Paribas mun eiga tíunda part og Fortis Group tvo þriðju.

BNP mun svo kaupa tryggingahluta Fortis.

Með þessum aðgerðum ættu innistæður viðskiptavina Fortis að vera tryggar, auk þess sem sú staðreynd að samið er við aðila sem ekki er með mikla viðskiptabankastarfsemi í Belgíu fyrir þýðir að starfsmenn Fortis þurfa ekki að óttast um störf sín.