365 miðlar og veðurfyrirtækið Belgingur hafa skrifað undir samning þess að efnis að Belgingur sjái um veðurfréttir á Stöð 2, í Fréttablaðinu og á Vísi. Þetta kemur fram í tilkynningu sem 365 miðlar voru að senda frá sér. Í gær greindi Kjarninn frá því að öllum veðurfréttakonum, sem störfuðu hjá 365 miðlum hefði verið sagt upp.

„Nýja fyrirkomulagið sem felur í sér ýmsar nýjungar verður tekið upp á næstu vikum," segir í tilkynningu frá 365 miðlum. „Um er að ræða öflugri veðurþjónustu og betri framsetningu en verið hefur.  Á sama tíma hefur veðurfréttamönnum á Fréttastofu 365 verið sagt upp störfum.  Ólafur Rögnvaldsson veðurfræðingur er framkvæmdastjóri, stofnandi og einn eigenda Belgings, Reiknistofu í veðurfræði, sem var stofnað árið 2001.

„Þetta er spennandi verkefni, sem við höfum tekist á hendur fyrir stærstu fréttastofu landsins.  Í okkar veðurgrunni notum við bæði upplýsingar frá evrópsku og bandarísku reiknimiðstöðinni, svo okkar spár ættu að vera ansi raunverulegar og nákvæmar,“ segir Ólafur í fréttatilkynningunni.  „Auk þess er gaman að fá tækifæri til þess að nota alla miðla til að koma upplýsingum okkar á framfæri.“