Einn stjórnenda seðlabanka Belgíu segir hugmyndir hluthafa Fortis bankans um að taka þjóðnýtingu hans á einhvern hátt til baka óraunhæfar.

„Ykkur er að dreyma ef þið haldið að samningurinn geti gengið til baka og að Fortis geti áfram staðið á eigin fótum. Það er algjörlega óraunhæft,“ sagði Luc Coene í belgísku sjónvarpsviðtali.

„Það væri stórslys ef þjóðnýtingin gengi til baka. Fortis getur ekki lifað við þessar erfiðu markaðsaðstæður.“

Fortis bankinn var tekinn yfir af stjórnvöldum í Hollandi, Belgíu og Lúxemborg fyrr í þessum mánuði. Franski bankinn BNP Paribas keypti svo 75% hlut í belgíska hluta Fortis.

Á meðan hafa eigendur hlutabréfa í Fortis séð gengi bréfa sinna fara úr tæplega 30 evrum á hlut, í apríl ársins 2007, niður í minna en 1 evru á hlut núna.

Hluthafar halda því fram að þeirra samþykki hefði þurft við björgun Fortis bankans og hóta lögsókn á hendur stjórnvöldum í Hollandi og Belgíu. Einkum er það sala ríkisins á bankanum til BNP Paribas sem er deiluefnið í Belgíu.

„Það var aldrei raunhæfur valmöguleiki fyrir ríkið að eiga og reka Fortis bankann, sem hafði misst allan trúverðugleika á fjármálamörkuðum og var á niðurleið. Maður leysir ekki vandamál með þjóðnýtingu,“ sagði Coene einnig.

Belgíska ríkið hefur boðið hluthöfum Fortis sem misst hafa sitt að fá hlut í hagnaði af eign belgíska ríkisins á 11,6% hlut í BNP Paribas fram til ársins 2014.