Bandarískt efnahagslíf er að rétta úr kútnum. Skuldakreppan á evrusvæðinu og brothættur bati á meginlandi Evrópu gæti hins vegar haft neikvæð áhrif, að sögn Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Hann sat fyrir svörum á fundi fjárlaganefndar bandaríska þingsins í gær.

Bernanke fór yfir stöðu efnahagsmála, atvinnumál og skuldir hins opinbera. Hann benti á máli sínu til stuðnings að loks nú sé að draga úr atvinnuleysi.

Hins vegar benti hann á að skuldir hins opinbera væru alltof háar í hlutfalli við landsframleiðslu og augljóslega ósjálfbærar. Mælti hann með því að draga úr skuldasöfnun ríkisins, í það minnst að koma skikkan á hana. Gert er ráð fyrir að skuldir hins opinbera verði 7% af landsframleiðslu í ár, samkvæmt áætlunum fjárlaganefndarinnar.