Augu vestanhafs beinast að bandaríska seðlabankanum og fyrsta vaxtaákvörðunarfundinum undir stjórn Ben Bernanke, segir greiningardeild Landsbankans,

Á tveggja daga fundi sem hefst í dag er sterklega búist við að ákveðið verði að hækka stýrivexti um 25 punkta og munu þeir þá standa í 4,75%.

Ef af verður mun þetta verða fimmtánda hækkunin í röð frá því að Alan Greenspan hækkaði vexti um mitt ár 2004, segir greiningardeildin.

Þar sem flestir eru nokkuð öruggir um 25 punkta hækkun má reikna með að meiri athygli beinist að ræðu Bernanke heldur en vaxtabreytingunni sjálfri, í von um vísbendingar um hversu ágengur bankinn verður í framtíðinni.