Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, hét því gær að koma á jafnvægi á fjármálamörkuðum og sagði það „helsta markmið“ bankans um þessar mundir. Bernanke lét þessi orð falla í vitnisburði sínum fyrir Bandaríkjaþing.

Að sögn breska blaðsins Financial Times viðurkenndi seðlabankastjórinn meðal annars að það væri afar erfitt fyrir forráðamenn bankans um þessar mundir að vega salt á milli hættunnar á niðursveiflu annars vegar og hættunnar sem stafar af verðbólgu hins vegar.

Í vitnisburði Bernanke kom fram að nýleg þróun hafi sýnt að „mikil streita ríkti á mörgum fjármálamörkuðum sem og meðal margra fjármálastofnanna.“

Skert aðgengi að fjármagni, hátt orkuverð og niðursveifla á fasteignamarkaði halda áfram að hamla hagvexti. Á sama tíma lét hann þau orð falla að stefnusmiðir bankans væru á þeirri skoðun að óvenjumikil óvissa ríkti um verðbólguhorfur og haldi heimsmarkaðsverð á hrávöru áfram að hækka gæti þróunin leitt til þess að verðbólguvæntingar fari vaxandi. Bernanke sagði að það væri ábyrgð þeirra sem fara með peningamálastefnuna að koma í veg fyrir að það gerist.