Stoðir bandaríska efnahagslífsins eru veikar og atvinnuleysi enn of mikið, að sögn Ben Bernanke, seðlabankastjóra Bandaríkjanna. Hann sat fyrir svörum um stöðuna og framtíðarhorfur hjá bankamálanefnd bandaríska öldungadeildarþingsins fyrr í dag og mun hafa verið svartsýnni um horfurnar en fram til þessa. Bernanke fundar tvisvar á ári með nefndinni um stöðu efnahagsmála.

Atvinnuleysi er hefur verið yfir 8% vestanhafs síðan fjármálakerfið fór á hliðina haustið 2008. Þá mældist 2% hagvöxtur á 1. ársfjórðungi og búist við að dragi úr honum eftir því sem líði á árið.

Bandaríska stórblaðið Wall Street Journal segir Bernanke engar vísbendingar hafa gefið um það hvenær og til hvaða ráða seðlabankinn ætli að grípa til að ýta efnahagslífinu áfram og hvaða aðferðum verði beitt til að draga úr atvinnuleysi. Eins og blaðið lýsir fundinum sagði Bernanke mikið álag á evrópskum fjármálamörkuðum og hafi aðstæður á meginlandinu, ekki síst á evrusvæðinu, haft neikvæð áhrif um heim allan. Þá útilokaði hann ekki að skuldavandinn á evrusvæðinu versni frekar með tilheyrandi afleiðingum.

Hann lagði áherslu á að þingmenn snúi bökum saman í baráttunni til að koma efnahagslífinu á réttan kjöl og bregðist við fyrr en seinna.