Byggjum, alhliða framkvæmda- og þjónustufyrirtæki, hefur farið nýjar leiðir í markaðssetningu en það hefur sent fjölda fasteignaeigenda ábendingar um leyfi sem falla undir hverfa- og deiliskipulag Reykjavíkur.

Friðrik Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Byggjum, segir bréfin hafa opnað augu fólks fyrir möguleikum á að breyta núverandi húsnæði að sínum þörfum fremur en einfaldlega selja og kaupa annað. Bréfin séu markaðssetning á hóp fasteignaeigenda sem þegar eigi þennan rétt samkvæmt deiliskipulagi. Fasteignaeigendur í Vesturbænum fá fyrstir bréf en Friðrik segir Byggjum ætla að halda þessu átaki áfram enda hafi viðbrögðin verið mjög góð. Á milli sjö og átta hundruð bréf eru send út til að byrja með.