Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við London School of Economics, segir viðbrögð franskra stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum vera með allra versta móti. Verið sé að gera mistök sem varað hafi verið við fyrir meira en sjö áratugum.

Vox gerði svifasein viðbrögð Frakka við faraldrinum að umfjöllunarefni í vikunni. Þrátt fyrir það sem sé alla jafna sé litið á sem sterkt heilbrigðiskerfi hafi dauðsföll í Frakklandi vegna kórónuveirunnar verið þau fjórðu flestu í heiminum. Þá hafi skort á pláss á spítölum fyrir sjúklinga, skortur hafi verið á andlitsgrímum og fleiri heilbrigðisvörum.

Bendir Frökkum á Hayek

Jón segir að það myndi myndi gera frönskum stjórnvöldum gott að lesa Use of knowledge in society eftir austurríska hagfræðinginn F.A. Hayek sem kom fyrst út á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar.

Í greininni rekur Hayek hvernig upplýsingum sé dreift um samfélagið og enginn einstaklingur búi yfir öllum upplýsingum um smekk neytenda og þau aðföng sem til staðar séu í samfélaginu. Miðstýrt ríkisvald geti aldrei náð hagkvæmustu skipan framleiðslu vegna þess að ríkisvaldið búi ekki yfir nægum upplýsingum um samfélagið.

Amazon skellir í lás eftir dóm

Jón vísar í umfjöllun Bloomberg um að franskir dómstólar hafi sett Amazon stólinn fyrir dyrnar. Amazon er óheimilt að selja annað en „nauðsynjavöru“, svo sem mat og hreinlætisvörur þar til félagið kemur upp nýrri áætlun um hvernig það hyggist vernda verkamenn gegn mögulegum smitum á kórónuveirunni. Fari Amazon ekki dómnum á það yfir höfði sér sektir upp á 1 milljón evra á dag. Starfsmenn Amazon, bæði í Bandaríkjunum og Frakklandi höfðu kvartað undan vinnuaðstæðum, sem leiddi meðal annars til þess að þremur starfsmönnum Amazon var sagt upp í Bandaríkjunum.

Amazon brást við að með því að loka vöruhúsum sínum í Frakklandi í fimm daga. Frakkar segja fyrirtækið vera farið í fýlu, samkvæmt umfjöllun Bloomberg um málið. Stjórnendur Amazon segjast hafa lagt mikið á sig til að tryggja öryggi starfsmanna. Dómurinn sé svo óskýr og vandséð sé hvernig fara megi eftir honum. Félagið muni reyna að afhenda pantanir með því að afgreiða þær í gegnum vöruhús utan Frakklands.

Ráðist gegn starfsemi sem enn virki

Jón segir að í miðri kreppu þar sem opinberi geirinn eigi í vandræðum með að sinna nauðsynlegri þjónustu og flest einkarekin fyrirtæki séu á vonarvöl hafi Frakkar beint sjónum sínum af einu af fáum fyrirtækjum sem enn geti haldið starfsemi sinni gangandi — Amazon. Með þessu sé verið að gera mistök sem Hayek varaði við fyrir 75 árum.