Benedikt Bogason hæstaréttardómari er erlendis. Þorsteinn A. Jónsson, skrifstofustjóri Hæstaréttar, segist ekki vita hvort hann muni bregðast við skrifum Jóns Steinars Gunnlaugssonar, hæstaréttarlögmanns og fyrrverandi hæstaréttardómara, í Morgunblaðinu í dag.

Jón Steinar spyr Benedikt fimm spurninga í blaðinu. Tilefnið er að í Fréttablaðinu á mánudaginn birtist á forsíðu frétt um að fyrrverandi forstjóri Kaupþings hafi kært Benedikt Bogason, þáverandi héraðsdómara, og sérstakan saksóknara fyrir refsiverða háttsemi við uppkvaðningu úrskurðar um símahlustun hjá forstjóranum í maí 2010. Dómarinn sem í hlut á hefur nú verið skipaður dómari við Hæstarétt Íslands.

Segir Jón Steinar að heilindi dómarans og virðing fyrir landslögum þurfi að vera hafin yfir allan vafa.

Spurningarnar sem Jón Steinar spyr Benedikt Bogason eru eftirfarandi:

  1. Hafði hann fengið skriflega beiðni frá sérstökum saksóknara um símahlustun, áður en hann kvað upp úrskurðinn?
  2. Hvaða önnur gögn lágu fyrir honum á því augnabliki?
  3. Var málið tekið fyrir á þingstað Héraðsdóms Reykjavíkur við Lækjartorg í Reykjavík?
  4. Er það rétt sem segir í frétt blaðsins, að lögreglumenn hafi sótt úrskurðinn á heimili dómarans í Reykjavík og þá hafi engar forsendur fylgt niðurstöðunni?
  5. Mætti sérstakur saksóknari á dómþing í málinu?
  6. Óskaði hann eftir því við lögreglumennina sem sóttu úrskurðinn til hans að skrifleg beiðni um símahlustunina yrði fengin honum síðar?