Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, hefur dregið til baka umsókn sína um stöðu seðlabankastjóra í bréfi sem hann skrifaði til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Fréttablaðið greindi frá efni bréfsins í morgun en í því kemur meðal annars fram óánægja með að hæfnisnefndin horfi ekki til þess að eitt stærsta hlutverk nýs seðlabankastjóra verði að undirbúa sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins um næstu áramót.

Segir Benedikt að í ljósi þess að meginverkefni nýs seðlabankastjóra verði að leiða breytingar á þessu sviði hafi það komið honum í opna skjöldu þegar hæfnisnefnd tjáði honum í upphafi viðtals að hún myndi aðeins miða sína umsögn við starfið eins og það hefur verið en ekki líta til þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið. Benedikt nefnir þó í bréfinu að formaður hæfnisnefndarinnar hafi sagt að það gæti verið að Katrín Jakobsdóttir muni líta til fleiri þátta.

Þá segir í bréfinu að í áðurnefndu viðtali hafi verið augljóst að nefndin horfi fyrst og fremst á stöðuna sem rannsóknarstöðu en leggi litla áhersli á rekstur eða stjórnsýslu. „Hæfnisnefndin horfir því ekki til þeirrar stöðu sem ætla má að nýr seðlabankastjóri muni gegna obbann af sínu tímabili. Þetta er í hæsta máta óeðlilegt,“ segir Benedikt.