Stjórn Viðreisnar samþykkti á fimmtudag tillögur fyrir komandi landsþing flokksins sem snúa að breytingum á reglum um innra starf flokksins, þar á meðal að prófkjör verði meginregla um val á efstu sætum lista flokksins. Þetta kemur fram í Facebook færslu Benedikts Jóhannessonar, stofnanda Viðreisnar.

Þá verður stofnað málfundafélagið Endurreisn, sem verður félag innan Viðreisnar. Benedikt verður formaður félagsins. Í tilkynningunni segir að Endurreisn muni berjast „fyrir heiðarleika, góðum stjórnarháttum, drenglyndi í stjórnmálum, frelsi, jafnrétti, stöðugu efnahagslífi og réttlæti“.

Ágreiningur hefur ríkt innan Viðreisnar vegna ákvörðunar um skipun uppstillingarnefndar í stað þess að ráðast í prófkjör. Benedikt hafði óskað eftir oddvitasæti á Suðvesturhorninu en var í stað þess boðinn neðsta sæti listans. Benedikt hafnaði boðinu og voru vangaveltur uppi um að hann myndi stofna nýjan flokk. Nú er hins vegar ljóst að hann muni starfa áfram innan raða Viðreisnar.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar:

„Ég er ánægð með að samkomulag hafi náðst og þá sérstaklega með að Benedikt muni áfram starfa með flokknum enda öflugur liðsmaður. Við höfum sameiginlega sýn á það hvernig gera má íslenskt samfélag betra og ég hef fulla trú á því að saman eigum við eftir að gera flokkinn sterkari.“

Benedikt Jóhannesson :

„Nú skiptir máli að snúa bökum saman og berjast saman fyrir nauðsynlegum grundvallarbreytingum á íslensku samfélagi en áherslumál Viðreisnar hafa aldrei verið eins mikilvæg fyrir þjóðina og einmitt núna.

Það þarf að setja á oddinn að reisa fjárhag ríkisins eftir Covid-faraldurinn og hallarekstur undanfarin ár, aflaheimildir verði seldar á markaði til takmarkaðs tíma þannig að hluti þeirra verði boðinn upp á hverju ári, kosningaréttur allra verði jafn, óháð búsetu, innflutningur matvæla verði frjáls og tollar og önnur gjöld á þau afnumdir.

Gengi krónunnar verði tengt við evru með það að markmiði að hægt verði að taka upp evru þegar þar að kemur, ríki og sveitarfélög hætti að sinna verkefnum sem einkaaðilar geta sinnt og aðför að einkarekstri í heilbrigðiskerfinu verði hætt.

Hér eftir sem hingað til mun ég starfa af fullum heilindum að þessum markmiðum innan Viðreisnar.“