Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, veltir um þessar mundir fyrir sér að sækja um stöðu seðlabankastjóra.

Staðan var sem kunnugt er auglýst nýlega, og í hana verður skipað til fimm ára í ágúst næstkomandi, en Már Guðmundsson, sem nú gegnir stöðunni, lýkur þá lögbundnum hámarksskipunartíma sínum.

Lítið hefur borið á umræðu um hugsanlega arftaka Más enn sem komið er, en umsóknarfrestur um starfið rennur út þann 25. mars næstkomandi, og í kjölfarið verður listi umsækjenda birtur. Orðrómur var uppi um að Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins og mennta- og menningamálaráðherra, hygðist sækja um, en því hefur hún sjálf neitað .

Benedikt segist ekki hafa gert upp hug sinn enn, en hann hafi veitt því athygli að staðan sé að losna, og sé ekki í föstu starfi sjálfur sem stendur.

Hann segir miklar skipulagsbreytingar felast í sameiningaráformum bankans við Fjármálaeftirlitið, ásamt fleiri fyrirhuguðum breytingum, og þær muni krefjast þekkingar á rekstri og sameiningu fyrirtækja og stofnana. Sjálfur hafi hann mikla reynslu af slíku. „Það er mjög mikilvægt að þessi staða sé vel skipuð, en það eru kannski ekki mjög margir sem hafa þann fjármála- og rekstrarbakgrunn sem til þarf.“

Benedikt er með BS próf í stærðfræði með hagfræði sem aukagrein frá University of Wisconsin, MS próf í tölfræði frá Florida State University, og doktorspróf frá sama skóla í tölfræði sem aðalgrein og stærðfræði sem aukagrein.

Árið 1984 stofnaði hann ráðgjafafyrirtækið Talnakönnun, og stýrði því allt til ársins 2016. Samhliða því var hann framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Heims frá aldamótum til 2016, en það gaf meðal annars út elsta viðskiptatímarit landsins, Frjálsa Verslun, þar til í fyrra. Auk þess ritstýrði hann Skýjum frá 2005 og Vísbendingu frá 2006.

Árið 2016 varð hann formaður Viðreisnar við stofnun hennar, og í kjölfar þingkosninga það haust varð hann þingmaður norðausturkjördæmis og Fjármála- og efnahagsráðherra til 30. nóvember 2017.