Forsvarsmenn Nýherja eru þessa dagana að leita fyrir sér með nýtt hlutafé.

Hefur Benedikt Jóhannesson, stjórnarformaður félagsins, m.a. fundað með forsvarsmönnum lífeyrissjóða að undanförnu og öðrum fjárfestum vegna þessa samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Félagið hefur átt í rekstrarvandræðum allt frá hruni þar sem gengisfall krónunnar kom illa við fjárhag félagsins.

Meðal dótturfyrirtækja Nýherja eru Skyggnir, Dansupport, Applicon, Vigor, TM Software, EMR Heilbrigðislausnir, Sense og Klak. Í síðasta árshlutareikningi félagsins kom fram að félagið hafi ekki uppfyllt skilyrði í lánasamningum um eiginfjár- og rekstrarhagnaðarhlutfall.