Benedikt Olgeirsson og Reimar Pétursson hafa verið ráðnir í nýjar stöður framkvæmdastjóra hjá Atorku Group hf. Benedikt verður framkvæmdastjóri umbreytingarverkefna hjá Atorku Group og Reimar verður framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Atorku Group. Hann stjórnar fjárfestingarverkefnum Atorku Group og starfar auk þess að stefnumótun og rekstri félagsins.

Sem framkvæmdastjóri hjá Atorka Group mun Benedikt bera ábyrgð á stefnumörkun og þróunarstarfi í tengslum við eignarhluta félagsins í Austurbakka, A.Karlssyni, Besta, Gróco, Ilsanta, Icepharma, Ismed og Parlogis hérlendis og erlendis. Þá mun hann einnig sinna öðrum verkefnum hjá Atorku og situr meðal annars í stjórn Promens og Sæplasts.

Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Ísland og lauk meistaraprófi í verkefnastjórnun frá University of Washington í Seattle árið 1987. Á árunum 1988-1993 starfaði hann við verkefnastjórnun í verktakageiranum þar til hann réðst til starfa hjá Eimskip. Frá 1993 til 1997 stýrði hann rekstri Eimskips í Sundahöfn og næstu tvö árin þar á eftir var hann forstöðumaður innanlandsflutninga félagsins. Frá 1999 til 2003 var hann framkvæmdastjóri Eimskips í Hamborg. Benedikt hefur síðastliðið eitt og hálft ár verið framkvæmdastjóri Parlogis hf., dótturfélags Atorku Group. Parlogis hét áður Lyfjadreifing ehf.

Reimar útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands 1998. Á árunum 2002-2003 stundaði hann nám í fjármála- og viðskiptatengdri lögfræði við Columbia University í New York og útskrifaðist þaðan með meistarapróf í lögfræði árið 2003. Hann starfaði sem lögmaður á árunum 1998-2005, fyrst sem fulltrúi Jóns Steinars Gunnlaugssonar og Karls Axelssonar, síðar sem meðeigandi Nestor lögmanna og loks sem sjálfstætt starfandi lögmaður. Hann hlaut réttindi til málflutnings fyrir Hæstarétti í janúar 2004 og málflutningsréttindi í New York fylki í desember 2004. Hann hefur síðastliðið hálft ár verið lögfræðingur Atorku Group.