*

sunnudagur, 25. júlí 2021
Fólk 18. nóvember 2019 09:31

Benedikt Ólafs hættir hjá Skeljungi

Framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs, Benedikt Ólafsson, segir upp störfum eftir fjögurra ára starf.

Ritstjórn
Skeljungur var lengi umboðsaðili Shell á Íslandi en fyrirtækið rekur bensínstöðvar undir merkinu Orkan í dag víða um land.
Haraldur Guðjónsson

Benedikt Ólafsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs hf., hefur sagt starfi sínu lausu. Benedikt hefur unnið fyrir félagið í nærri 4 ár, en Viðskiptablaðið sagði frá því þegar hann var ráðinn í byrjun árs 2016.

Hann sat í stjórn Skeljungs frá árinu 2013 til 2016 áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs.„Ég vil þakka stjórn og starfsmönnum félagsins kærlega fyrir þann tíma sem ég hef haft aðkomu að félaginu, bæði sem stjórnarmaður og síðar starfsmaður,“ segir Benedikt.

„Það var lærdómsríkt og skemmtilegt að fá að taka þátt í skráningu félagsins á markað og framgangi þess í framhaldinu. Ég tel þetta vera réttan tímapunkt fyrir mig til að gera breytingar og óska ég starfsmönnum félagsins alls hins besta á komandi árum.“

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs þakkar jafnframt Benedikt fyrir gott starf sem hann hafi unnið fyrir Skeljung: „Benedikt hefur gengt lykilhlutverki hjá fyrirtækinu við mótun stefnu þess og framkvæmd hennar. Hann leiddi mörg af þeim stóru verkefnum sem fyrirtækið hefur farið í og náð góðum árangri í sínu starfi. Ég óska Benedikt alls hins besta í því sem hann kann að taka sér fyrir hendur í framtíðinni,“ segir Árni Pétur.

Skeljungur er orkufyrirtæki sem selur vörur og þjónustu á Íslandi, í Færeyjum og á Norður-Atlantshafinu. Meginstarfsemi félagsins er innflutningur, birgðahald, sala og dreifing á eldsneyti og eldsneytistengdum vörum. Félagið starfrækir 76 eldsneytisstöðvar og 6 birgðastöðvar á Íslandi og í Færeyjum.

Auk þess selur félagið áburð og efnavörur á Íslandi og rekur verslanir og þjónustar og selur olíu til húshitunar í Færeyjum. Viðskiptavinir Skeljungs spanna frá einstaklingum til fyrirtækja, í sjávarútvegi, landbúnaði, flutningum, flugi og til verktaka.

Starfsemin er rekin undir merkjunum Skeljungur, Orkan og Magn. Meginmarkmið Skeljungs er að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við umhverfi sitt.