Stjórn Arion banka hefur ráðið Benedikt Gíslason í starf bankastjóra og mun hann hefja störf 1. júlí næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til kauphallarinnar sem birt var fyrir skömmu.

Benedikt hefur starfað á íslenskum fjármálamarkaði undanfarna tvo áratugi en hann hóf störf hjá FBA (síðar Íslandsbanka) árið 1998, sinnti margvíslegum stjórnunarstörfum hjá Straumi-Burðarás, var framkvæmdastjóri markaðsviðskipta hjá FL Group og framkvæmdastjóri fjárfestingarbankasviðs MP banka. Benedikt var varaformaður starfshóps stjórnvalda um afnám fjármagnshafta á árunum 2013-2016. Hann sat í stjórn Kaupþings á árunum 2016-2018. Benedikt hefur verið ráðgjafi Kaupþings í málefnum Arion banka og hefur setið í stjórn bankans frá árinu 2018. Benedikt er verkfræðingur frá Háskóla Íslands.

Í tilkynningunni er haft eftir Brynjólfi Bjarnasyni, stjórnarformanni Arion banka:

„Benedikt hefur mjög skýra sýn á framtíð bankans og hvernig eigi að mæta þeim áskorunum sem fjármálafyrirtæki standa frammi fyrir á næstu árum. Rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja um allan heim er að breytast hratt, ekki síst með auknu vægi stafrænnar fjármálaþjónustu. Það er jafnframt mikill styrkur fyrir Arion banka að fá til forystu einstakling með jafnmikla reynslu og þekkingu og Benedikt býr yfir.

Þá er segir Benedikt Gíslason, verðandi bankastjóri Arion banka:

„Ég er fullur tilhlökkunar að takast á við þetta spennandi verkefni. Arion banki er gott fyrirtæki og gegnir mikilvægu hlutverki. Ég þekki bankann vel og hlakka til kynnast honum og hans öfluga starfsfólki enn betur. Verkefnið framundan er að halda áfram að þróa starfsemi og þjónustu bankans og veita viðskiptavinum góða og nútímalega fjármálaþjónustu. Arion banki nýtur ákveðinnar sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði þegar horft er til stóru bankanna þriggja sem almenningshlutafélag skráð í kauphallir á Íslandi og í Svíþjóð.“