Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, sækist eftir því að verða fjármálaráðherra í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar, að því er segir í frétt sem birtist í Fréttablaðinu í dag.

Þar er haft eftir heimildarmanni blaðsins að búist sé við því að Óttarr Proppé og Björt Ólafsdóttir verði ráðherrar fyrir Bjarta framtíð. Talið er líklegt að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þorsteinn Víglundsson sækist eftir ráðherraembætti.

Eins og var greint frá á Vísi.is , þá er staðhæft að skipting ráðuneyta verði á þann veg að Sjálfstæðisflokkurinn fái fimm ráðherra, Viðreisn þrjá og Björt framtíð tvo. Þetta myndi um það bil endurspegla þingstyrk flokkanna þriggja. Hins vegar sagði Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í viðtali við Viðskiptablaðið , að skipting ráðuneyta hafi verið skoðuð en að hann hafi „séð ansi margt haft eftir heimildarmönnum sem að hann kannist ekki sjálfur við.“