Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, skrifar pistil á vefsíðu flokksins þar sem að hann áréttar meðal annars að hugmyndin um að draga úr notkun reiðufjár sem kom fram í skýrslu starfshóp sérfræðinga til að stemma stigu við skattsvikum sé ekki aðalatriðið í tillögum hópsins. Þá segir hann enn fremur að ekki sé talað um að banna reiðufé.

„Meðaltalsútreikningar sýna að meðal-Íslendingurinn á tæplega 200 þúsund krónur í reiðufé þar af helminginn í tíuþúsundköllum. Vegna þess að fæstir kannast við að eiga slíkar fjárhæðir í seðlum vaknar grunur um að reiðufé sé súrefni svarta hagkerfisins. Tillögur um í skýrslunni um minnkun reiðufjár er (en ekki bann við notkun þess) eru því til þess að minnka svarta hagkerfið og þrengja að þeim sem þar starfa, en ekki vega að heiðarlegu fólki.

Tillögur nefndarinnar eru heldur ekki settar fram til þess að hygla greiðslukortafyrirtækjum heldur leggur hún þvert á móti fram tillögur um gjaldfrjálsa reikninga almennings í Seðlabankanum, reikninga sem ekki bæru viðskiptagjöld. Nefndin gerir sér fulla grein fyrir því að skiptar skoðanir eru um ágæti þessa,“ bendir Benedikt á. Hann bætir við að hugmynd nefndarinnar um að taka tíu þúsund krónu seðla úr umferð sé nógu frumleg til þess að allir hafa skoðun á henni. „Miðað við fyrstu viðbrögð er samfélagið ekki tilbúið í svo róttæka hugmynd, en hún er sem betur fer ekkert grundvallaratriði í tillögum hópsins,“ skrifar fjármálaráðherra.

Kom ekki nálægt skýrslugerðinni

Skýrslurnar tvær er hægt að nálgast á heimasíðu stjórnarráðsins . Benedikt skrifar að í skýrslum beggja starfshópa, hafi komið fram margar hugmyndir sem eru athygli verðar, sem eru þó misgóðar. Hann tekur fram að hann sé alltaf tilbúinn að íhuga frumlegar hugmyndir en að hann hann kom ekki nálægt skýrslugerðinni og gaf engar skipanir um niðurstöður.

„Aftur á móti er ég mjög ánægður að hafa fengið þennan gnægtabrunn hugmynda að vinna úr. Nú nýtum við tímann til þess að vinna úr bestu hugmyndirnar og nýtum þær til þess að stöðva þessa óskemmtilegu starfsemi,“ skrifar fjármálaráðherra.