Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar segir ekki koma til greina að fá Framsóknarflokkinn inn í ríkisstjórnina en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í morgun hefur Sigurður Ingi Jóhannesson einnig útilokað að ganga til liðs við ríkisstjórnina.

Benedikt segir þó að starfsstjórn komi til greina að því er RÚV greinir frá, en hann segir að boða verði til kosninga þó hann sjái ekki að landslagið hafi breyst. „Það þarf að vera starfhæf stjórn,“ segir Benedikt sem þó svaraði því ekki hvort hann muni starfa með Sjálfstæðisflokknum. „Við þurfum að eiga samtal við aðra formenn flokkanna og meta stöðuna. Það þarf að hafa ýmislegt í huga, bæði pólitískt og einnig sem varða stjórnskipun landsins.“

Átti ekki von á stjórnarslitum í gærkvöldi

Benedikt segist ekki hafa upplifað trúnaðarbrest í ríkisstjórnarsamstarfinu, en hann virði niðurstöðu annarra flokka að því er mbl segir frá. Hann sagðist þó undrandi á viðbrögðum Bjartrar framtíðar sem eins og Viðskiptablaðið sagði frá upp úr miðnætti ákvað að slíta ríkisstjórninni.

„Ég átti ekki von á þessu klukkan tíu í gærkvöldi,“ sagði Benedikt, sem sagði málið sem sprengdi ríkisstjórnina vera „óhugnanlegt“ og að heppilegra hefði verið ef dómsmálaráðherra hefði ekki sagt forsætisráðherra frá undirskrift föður hans í júlí. Trúnaðargögn ættu að vera trúnaðargögn.

Bjarni upplýsti þá um málið á mánudag

Benedikt sagði að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði sagt þeim Óttarri Proppé formanni Bjartrar framtíðar frá undirskrift föður síns á mánudag en eins og Viðskiptablaðið sagði frá í morgun vissi Óttarr af undirskriftinni áður en upplýst var um hana í fjölmiðlum. „Þegar hann sagði okkur frá þessu á mánudaginn vissi ég ekkert um hvað það mál snerist,“ segir Benedikt sem sagði að Bjarni hefði ekkert sagt um hvenær hann hefði frétt af málinu.

„Við vorum að funda um allt annað mál en í lok fundarins segir hann frá því að faðir hans hafi skrifað upp á meðmælabréf með einum þeirra sem hafi fengið uppreist æru. Við spyrjum hann hvort það sé eitthvað sem geti valdið því að hann eigi erfitt með að fjalla um málið. Þá segir Bjarni að þetta sé ekki mál sem hann hafi fjallað neitt um. Svo var það ekki meira rætt.“

Segir að rjúfa þurfi þing þó ekki sé trúnaðarbrestur

Spurður hvort um trúnaðarbrest hafi verið að ræða segir hann svo ekki vera. „Nei, en þetta mál er svo óhugnanlegt og nú hafa öll skjöl verið birt, og atburðarásin að koma í ljós. Það er erfitt að meta hvað maður hefði gert í fortíðinni miðað við hvað maður vissi þá,“ segir Benedikt sem segir flokkinn hafa sagt að það blasi við að rjúfa þurfi þing og boða til kosninga.

„Það þarf að huga að því að bent hefur verið á að eðlilegt sé að fljótt sé gengið til kosninga, miðað við ástandið síðastliðið haust og þær erfiðu stjórnarmyndunarviðræður sem lyktaði með ríkisstjórn með eins manns meirihluta. Ég sé ekki að landslagið hafi breyst.“