Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar og þingmaður flokksins, hefur sagt sig úr stjórn Nýherja. Benedikt var áður stjórnarformaður félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu Nýherja til Kauphallarinnar.

Gert er ráð fyrir því að að tekin verði ákvörðun á næsta stjórnarfundi hver muni gegna formennsku í stjórn. Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, að það hafi verið ánægjulegt að starfa með Benedikt að vexti og velgengni Nýherja undanfarin ár.

„Fáir þekkja betur til félagsins, enda hefur hann setið í stjórn þess í meira en 22 ár og stærstan hluta þess tíma sem formaður. Það er missir af Benedikt úr stjórn en hann skilar nú af sér góðu búi í traustu félagi. Fyrir hönd samstarfsfólks hjá Nýherja kann ég honum allra bestu þakkir fyrir frábært samstarf og stuðning við félagið í gegnum árin. Við óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi,“ er jafnframt haft eftir Finni.

Nú skipa eftirfarandi stjórn félagsins eftir úrsögn Benedikts;

  • Emilía Þórðardóttir
  • Guðmundur Jóh. Jónsson
  • Hildur Dungal, varaformaður
  • Ívar Kristjánsson
  • Loftur Bjarni Gíslason