„Það er í sjálfu sér ekki gott að glata tiltrú erlendra fjárfesta, en hitt er þó verra þegar Íslendingar sjálfir, og þá sérstaklega ungt fólk, tapa trúnni á eigið hagkerfi til frambúðar,“ segir Benedikt Jóhannesson, formaður stjórnar Nýherja.

Hann sagði í ræðu sinni á aðalfundi Nýherja í síðustu viku marg fólk sem búi yfir verðmætri þekkingu hafa tapað trú á hagkerfinu og kjósi það því heldur að vinna utan landsteinanna en innan. „Það gefur lítið fyrir þá trúarkenningu að ekki megi nota aðra mynt en krónu á Íslandi, að því að virðist í því skyni að hægt sé að láta sverfa að almenningi þegar krónan er felld,“ sagði hann.

Benedikt er jafnframt ritstjóri Vísbendingar, framkvæmdastjóri Talnakönnunar og einn þeirra sem staðið hefur í forystu Já Ísland, hreyfingu sjálfstæðissinna í Evrópumálum sem hefur stutt aðildarviðræður stjórnvalda hér við Evrópusambandið. Benedikt var einnig framarlega í hópi þeirra sem studdu þriðja Icesave-samninginn.

Benedikt sagði jafnframt í ræðu sinni að einangrun Íslands hafi alltaf orðið þjóðinni til ills og þannig verði það áfram.

„Þó margt sé gott á Íslandi verða laun sem fyrirtæki greiða sínum starfsmönnum, sem margir hafa kunnáttu sem auðveldlega má nýta víða um heim, að vera samkeppnishæf við það sem gerist í nágrannalöndum,“ sagði hann.