Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að fjárfestar hafi ekki sett sig í samband við fjármálaráðuneytið og sýnt áhuga á að kaupa Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli eða hluti tengda henni. Þetta kom fram á óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag þar sem að Óli Halldórsson, varaþingmaður Vinstri grænna spurði fjármálaráðherra út í áhuga erlendra fjárfesta á kaupum á flugstöðinni.

Benedikt segir að hann hafi reynt að kynna sér það mál hvernig eignarhaldi hafi verið hagað á flugstöðvum erlendis og honum sýnist að það séu fleiri en einn aðili sem eigi hlut í flugvöllum og að ríki eigi oft stóran hlut - en aðrir aðilar gætu verið sjóðir og önnur eignarhaldsfélög. „Ég hef ekki mótað mér afstöðu í þessu máli en ég hef hlustað af áhuga á það að aðilar hafa verið að nefna tölur um mögulegt verðmæti Isavia sem að gæti verið á bilinu 100 til 200 milljarðar sem er augljóslega mjög breitt bil,“ sagði Benedikt á Alþingi.

Fjármálaráðherra bætir við að hann hafi látið hafa það eftir sér að það sé gott fyrir ríkið að vita af þessum varasjóði, þ.e. flugvellinum, ef einhvern tímann kæmi til þess að menn þyrftu að huga að því, en það hefur ekki verið skoðað á þessu stigi málsins af fjármálaráðuneytinu.

Í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins , segir Björn Óli Hauksson, forstjóri Isavia, að í kjölfar umræðu síðustu vikna varðandi mögulega einkavæðingu Leifsstöðvar hafi kviknað aukinn áhugi erlendra einkafjárfesta á framvindu málsins. Hann segir það þó ákvörðun stjórnvalda hvort og hvernig völlurinn yrði seldur.