Óttar Guðjónsson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri, rifjaði upp innherjaviðskipti, formanns Viðreisnar Benedikt Jóhannessonar, í pístli í Morgunblaðinu í dag sem að Viðskiptablaðið fjallaði um .. Benedikt Jóhannesson svarar þessu í dag í stöðuuppfærslu á Facebook síðu sinni.

Þar tekur hann meðal annars fram að: „Í nóvember fékk ég að sjálfsögðu leyfi regluvarðar fyrir mínum viðskiptum. Óttar bendir á að í byrjun desember tilkynnti félagið um hlutafjáraukningu, en eigið fé félagsins hafði verið veikt og hlutafjáraukning myndi styrkja eiginfjárstöðuna og gerði félagið þar með að vænlegri og öruggari fjárfestingakosti.

Svo fór líka að hlutaféð seldist á genginu 16,0, en ég hafði selt mína hluti á genginu 14,7 og fékk því talsvert minna fyrir minn hlut en ef ég hefði beðið. Hefði verið um innherjasvik að ræða hefðu þau líklega verið hin heimskulegustu í sögunni,“ segir Benedikt.

Hér má sjá pistilinn í heild sinni:

Það er alltaf gaman þegar vinir manns muna eftir manni. Ég hef átt vinsamleg samskipti við Óttar Guðjónsson hagfræðing um árabil. Nú síðast vorum við báðir stuðningsmenn Guðna Th. Jóhannessonar í kosningabaráttunni um forsetaframboðið, heiðarlegri og góðri baráttu sem endaði vel fyrir þjóðina. Stundum fannst okkur ómaklega að Guðna vegið, en stuðningsmenn voru sammála um að barátta af því tagi myndi hitta þá fyrir sem slíkum aðferðum beittu.

Í grein í Morgunblaðinu í morgun rifjar Óttar upp viðskipti mín með hlutabréf í Nýherja í nóvember síðastliðnum. Ég hef um árabil setið í stjórn Nýherja og öll viðskipti mín með hlutabréf í félaginu eru eðli málsins samkvæmt innherjaviðskipti. Það þýðir að ég þarf að fá samþykki regluvarðar félagsins ef ég kaupi eða sel hlutabréf. Það hef ég oft gert á þessu árabili og á nú um 2% hlut í félaginu.
Um þetta hef ég ekki séð ástæðu til þess að fjölyrða mikið síðan, en Óttari, vini mínum, finnst um málið hafa ríkt ærandi þögn. Mér finnst auðvitað leitt að hafa valdið honum hugarangri og skal því rifja upp málið stuttlega.

Í nóvember fékk ég að sjálfsögðu leyfi regluvarðar fyrir mínum viðskiptum. Óttar bendir á að í byrjun desember tilkynnti félagið um hlutafjáraukningu, en eigið fé félagsins hafði verið veikt og hlutafjáraukning myndi styrkja eiginfjárstöðuna og gerði félagið þar með að vænlegri og öruggari fjárfestingakosti.

Svo fór líka að hlutaféð seldist á genginu 16,0, en ég hafði selt mína hluti á genginu 14,7 og fékk því talsvert minna fyrir minn hlut en ef ég hefði beðið. Hefði verið um innherjasvik að ræða hefðu þau líklega verið hin heimskulegustu í sögunni.


Óttar hefur líka áhyggjur af hægagangi Fjármálaeftirlitsins. Mér er ljúft að upplýsa hann um að eftirlitið hefur ekki haft neitt samband við mig út af þessu máli, enda lá alltaf fyrir að ég hafði fengið leyfi eins og mér bar. Eftirlitið skrifaði aftur á móti regluverði Nýherja sem veitti því umbeðnar upplýsingar. Niðurstaða Fjármálaeftirlitins var sú, að það taldi skýringar regluvarðarins fullnægjandi. Vonandi nægja þessar upplýsingar til þess að skapa Óttari hugarró á ný.