Forsætisráðherra hefur ákveðið að skipa Benedikt Árnason skrifstofustjóra á nýrri skrifstofu þjóðhagsmála í forsætisráðuneytinu.

Benedikt er hagfræðingur með meistaragráðu í þjóðhagfræði og MBA. Hann hefur tæplega aldarfjórðungs starfsreynslu, þar af 16 ár á vettvangi stjórnsýslu.

Hann hefur starfað fyrir tvö ráðuneyti, fyrst sem skrifstofustjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og nú síðast sem efnahagsráðgjafi forsætisráðherra og ráðherranefnda ríkisstjórnarinnar.

Hæfnisnefnd sem skipuð var til meta hæfni umsækjenda um stöðuna taldi Benedikt hæfastan umsækjenda til að gegna embættinu.

Hæfnisnefndina skipuðu Helga Hauksdóttir, mannauðsstjóri í utanríkisráðuneytinu, Arnar Jónsson, stjórnsýsluráðgjafi hjá Capacent og Gunnar Haraldsson, hagfræðingur.