Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir búvörusamninginn vera rót vanda sauðfjárbænda og hann þurfi að endurskoða hið fyrsta í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag . Í samhengi við að sláturleyfishafar lækkuðu afurðaverð vegna offramboðs finnst honum athyglisvert að formaður Bændasamtakanna líki bændum við launamenn en ekki atvinnurekendur með sjálfstæðan rekstur.

„Afskipti ríkisins af landbúnaði undanfarna áratugi hafa verið svo mikil að margir líta svo á að í raun séu bændur launþegar en ekki sjálfstæðir atvinnurekendur, þó að mörg bú séu á stærð við lítil og meðalstór fyrirtæki,“ segir Benedikt meðal annars í greininni.

Bændur fastir í valkreppu fanganna

Segir hann kjarna málsins vera að lækkunin hafi verið fyrirsjáanleg fyrir ári þegar afurðaverðið var lækkað um 10% sem mörgum hafi fundist nóg um.

„Ég ræddi við einn af forsvarsmönnum afurðastöðvar síðastliðið haust og hann sagði: „Bændur munu reyna að vinna upp 10% tekjuskerðinguna með því að framleiða meira næsta sumar.“ Orð formannsins staðfesta þetta,“ segir Benedikt.

„Ákvörðun bændanna fellur undir það sem kallað er á hagfræðimáli valkreppa fanganna. Hún felst í því að ákvarðanir geta stundum komið sér vel fyrir einstaklinga, þó að þær spilli fyrir heildinni.“

Vilja styrkjakerfi án framleiðslutenginga

Benedikt segist ekki hafa hitt neinn einasta mann sem hafi verið ánægður með búvörusamningana á ferðum sínum um landbúnaðarhéröðin, en hann segir bæði Viðreisn og Bjarta framtíð hafa tekið afstöðu gegn samningunum.

„Ég veit að innan raða bænda voru ýmsir sem vildu stokka málin algerlega upp og taka upp styrkjakerfi sem ekki væri framleiðslutengt og leiddi því ekki til fyrirsjáanlegra slysa á borð við það sem nú blasir við öllum,“ segir Benedikt og vitnar í formann sauðfjárbænda um að aðlaga þurfi framleiðsluna að markaðnum með hvata til minni framleiðslu.

Núverandi kerfi hvetur til aukinnar framleiðslu

„Þetta er kjarni málsins, en núverandi búvörusamningar virka einmitt öfugt, hvetja einstaka bændur til þess að auka framleiðslu sína jafnvel þó að þannig grafi þeir undan hagsmunum heildarinnar.

Víða um lönd er rekin jákvæð byggðastefna. Ég hef lýst því yfir það sé að góður bisness fyrir samfélagið að fólk vilji búa víðar en í Reykjavík. Þannig er til dæmis hægt að byggja upp ferðaþjónustu og ýmiss konar iðnað tengdan sjávarútvegi víða um landið. Það er aftur á móti afleit stefna þegar ríkið borgar fyrir eitthvað sem er óskynsamlegt, til dæmis að framleiða meira á markað sem er mettaður.“

Tímabundinn vandi ekki leistur án þess að endurskoða samninga

Segir hann að þó það komi til greina að leysa tímabundinn vanda í sauðfjárframleiðslu verði það ekki gert meðan í gangi sé búvörusamningur þar sem ríkið stuðli að offramleiðslu og þar með lágu afurðaverði.

„Samningurinn sjálfur er vandinn. Því fyrr sem forsvarsmenn bænda fallast á að breyta honum, þannig að framleiðslutengingum sé hætt, því fyrr er hægt að finna lausn á þeim vanda sem nú blasir við,“ segir Benedikt. „Almenningur og bændur eiga skilið að fá góðan samning sem gera landbúnað samkeppnishæfari og lífskjör allra Íslendinga betri.“