Benedikt Jóhannesson, starfandi fjármálaráðherra, skrifar pistil á leiðarasíðu Morgunblaðsins, sem birtist í dag, síðasta starfsdag hans í embætti, þar sem hann vitnar í Dýrabæ eftir George Orwell. Bókin var skrifuð sem gagnrýni á byltingu sósíalismans og samkrull sósíalista og fjármagnseigenda en höfundurinn hafði lengi verið yfirlýstur sósíalisti.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um tekur ný ríkisstjórn við í dag en nú stendur yfir fundur með forseta Íslands á Bessastöðum þar sem Bjarni Benediktsson starfandi forsætisráðherra biðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt.

Í pistli Benedikts sem ber yfirskriftina Klingjum kollum tekur hann lokakafla sögunnar um Dýrabæ, sem er íslensk þýðing Jóns Sigurðssonar frá Kaldastaðarnesi á bók George Orwell Animal Farm , í heilu lagi án nokkurs formála eða útleggingar.

Í kaflanum sjá dýrin í bænum sem gert höfðu uppreisn gegn bóndanum að svínin sem tekið hefðu forystu í byltingunni voru búin að ná samkomulagi við bændurna á bæjunum í kring og héldu af því tilefni veislu með ræðuhöldum og göróttum drykkjum.

„Dýrin fyrir utan gluggann horfðu frá svíni til manns og frá manni til svíns,“ skrifar Benedikt upp úr bókinni, væntanlega í tilefni nýrrar ríkisstjórnar. „En þau gátu með engu móti greint á milli hver var hvað.“