Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna gæti átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsisdóm auk sektargreiðslu verði hann fundinn sekur um meiriháttar brot gegn ársreikningalögum sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður bílabúðarinnar. Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur Benedikt í byrjun desember í fyrra og er honum gefið að sök að hafa vanrækt skil á ársreikningum á lögmætum tíma vegna áranna 2006 til 2010. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Benedikt skilaði ársreikningum Bílabúðar Benna fyrir uppgjörárin 2006 til 2008 í febrúar og mars í fyrra. Ársreikningar fyrir árin 2009 til 2011 hafa hins vegar ekki skilað sér til Ársreikningaskrár.

Lögum samkvæmt á að skila ársreikningum í seinasta lagi 31. ágúst ár hvert fyrir árið á undan. Sé ársreikningi ekki skilað sendir ársreikningaskrá áskorun til viðkomandi félags um að skila inn ársreikningi. Sé ekki brugðist við áskoruninni er boðuð fésekt á félagið vegna vanskila og að lokum er félagið sektað vegna vanskila á ársreikningi.