Benedikt Eyjólfsson, löngum kenndur við Bílabúð Benna, verður að greiða 750 þúsund krónur í sekt til ríkissjóðs eða sæta fangelsis í 34 daga vegna þess að hann skilaði ekki ársreikningum til Ársreikningaskrár vegna uppgjörsáranna 2006 til 2010. Dómur þessa efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Í dómi Héraðsdóms segir m.a. að ekki sé fallist á þá vörn Benedikts að með birtingu ársreikninga sé brotið gegn eignarrétti hans. Dómurinn telur að einkahlutafélagið Bílabúð Benna falli undir gildissvið laga um ársreikninga nr. 3/2006 á því tímabili sem ákæra í málinu nær yfir og hafi Benedikt sem framkvæmdastjóri þess borið ábyrgð á því að skipulag og starfsemi félagsins væri í góðu horfi. Í því fólst m.a. að honum bar að hlutast til um að ársreikningur einkahlutafélagsins yrði sendur ársreikningaskrá eigi síðar en mánuði eftir samþykkt reiknings. Þá hafi Benedikt vanrækt og hann því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.

Ársreikningum Bílabúðar Benna fyrir uppgjörsárin 2002 til 2005 var skilað saman í desember árið 2008 en fyrir árin 2006 til 2008 í í febrúar og mars í fyrra.

Dómur Héraðsdóm Reykjavíkur