Hæstiréttur hefur dæmt Benedikt Eyjólfsson í Bílabúð Benna til að greiða eina milljón króna í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna ellegar sæta fangelsi í 40 daga fyrir að hafa ekki skilað ársreikningi til ársreikningaskrár fyrir uppgjörsárin 2006 til 2010 of seint. Benedikt og Bílabúðin voru í apríl dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur til greiðslu 750 þúsund króna sektar vegna sama máls í apríl síaðstliðinum. Saksóknara, sem hafði krafist þriggja mánaða fangelsis yfir Benedikt og fimm milljóna króna sektar, fannst dómurinn ekki nógu þungur í vor og áfrýjaði málinu til Hæstaréttar.

Hæstiréttur segir í dómi sínum háttsemi Benedikts meiri háttar brot á lögum um ársreikninga og féllst dómurinn ekki á með honum að tilteknar tilskipanir og reglugerðir ESB, sem höfðu verið felldar inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, breyttu nokkru þar um. Honum engu að síður talið til tekna að hafa skilað ársreikningum á endanum og því heimilt að gera honum fésekt.

Benedikt sagði í viðtali við Viðskiptablaðið í ágúst síðastliðnum mótfallinn því að ársreikningar einkafyrirtækja séu birtir opinberlega. Hann taldi jafnframt að keppinautar, sem margir hverjir enduðu í fangi bankanna, eigi engan rétt á að hnýsast í hans rekstri.

„Ég hef alltaf skilað ársreikningum, fyrst og fremst með skattframtali og einnig til ársreikningaskrár. Ég var sóttur til saka vegna þess að ég skilaði ársreikningum fyrir 2006 til 2010 ekki á réttum tíma til opinberrar birtingar hjá ársreikningaskrá. Ástæðan fyrir síðbúnum skilum var ofur einföld, ég sætti mig ekki við að þurfa að sýna keppinautum mínum og bankastjórum þeirra hvernig ég haga rekstri fyrirtækisins. Bílabúð Benna er einkafyrirtæki sem sækir sér ekki fjármagn á almennan markað, og því er engin þörf fyrir að birta svo ítarlegar upplýsingar, enda er enginn að skoða þær nema keppinautarnir.“

Dómur Hæstaréttar