Benedikt Eyjólfsson, kenndur við Bílabúð Benna var harðhorður í garð yfirvalda í erindi sem hann flutti í morgun á fundi hjá Félagi atvinnurekenda um ársreikningagerð og -skil. Segir hann að opinber birting ársreikninga lítilla fyrirtækja þjóni engum hagsmunum nema keppinauta þeirra. Vill hann að lögum verði breytt.

Nýlega var Benedikt dæmdur til að greiða 750.000 krónur í sekt fyrir að hafa skilað ársreikningum of seint til fyrirtækjaskrár. Greiði hann ekki sektina þarf hann að sæta fangelsisrefsingu. Benedikt segir dóminn á engan hátt hafa tekið á þeirri gagnrýni sem hann og fjöldi annarra hafi sett fram á opinbera birtingu ársreikninga, heldur horfir hann bara stíft á lagabókstafinn.

Hefur alltaf skilað ársreikningum

„Í raun er þetta fáránlegt mál. Bílabúð Benna hefur alltaf skilað ársreikningum á réttum tíma, öll þau 38 ár sem fyrirtækið hefur starfað. Þeir hafa fylgt skattframtalinu. Samt er fyrirtækið sektað fyrir að hafa skilað ársreikningum of seint,“ sagði Benedikt.

Hann segir að lögin krefjist þess til viðbótar að öll fyrirtæki á Íslandi sendi ársreikninga sína sérstaklega til opinberrar birtingar. Opinbert aðgengi að ársreikningum skipti vissulega máli fyrir stórfyrirtæki. Þeir sem kaupi hlutabréf í fyrirtækjunum, kaupa af þeim skuldabréf og eiga viðþau viðskipti upp á hundruð milljónir króna þurfi aðgang að þessum upplýsingum.

„Fyrir 90% fyrirtækja hér á landi skiptir hins vegar engu máli hvort utanaðkomandi hafi aðgang að ársreikningum þeirra eða þau geti flett upp ársreikningum annarra. Þessi fyrirtæki þurfa ekki opinbera ársreikninga til að geta átt í viðskiptum. Bílabúð Benna er einkafyrirtæki og það kemur engum utanaðkomandi við hvernig rekstri þess er háttað eða hvernig það stendur. Þegar svo ber undir sýni ég ársreikning fyrirtækisins þeim sem þess þurfa, t.d. vegna stærri viðskipta eða lánafyrirgreiðslu. Það ætti að nægja.“

Að mati Benedikts eru það helst keppinautar fyrirtækja sem skoða birta ársreikninga þeirra. Það sé „tóm steypa“ að opinber birting ársreikninga stuðli að gagnsæi. „Við skulum ekki gleyma öllum fínu ársreikningunum sem flæddu yfir þjóðfélagið fyrir hrun en reyndust uppblásinn froða,“ sagði Benedikt.

Hann vék svo máli sínu að samkeppnisstöðu Bílabúðar Benna, en þá hafi helstu keppinautar hans verið í eigu bankanna. „Ég vissi að ef bankarnir fengju ítarlegar upplýsingar um Bílabúð Benna í gegnum opinberan ársreikning, þá gætu þeir beitt sér með margvíslegum hætti gegn mínu fyrirtæki til að styrkja þau bílaumboð sem þeir höfðu tekið yfir. Ég lét mér því nægja að skila samandregnum ársreikningi fyrir árin 2009 og 2010. Þar koma fram minni upplýsingar en í þeim ítarlega ársreikningi sem ég átti að skila. Fyrir að verja mig með þessum hætti er ég sektaður um 750 þúsund krónur.“

Yfirvöld hafa nú þegar allar upplýsingar

Benti hann á að í janúar síðastliðnum sektaði ríkisskattstjóri 1.817 félög um 250.000 hvert fyrir að hafa ekki skilað ársreikningum 2011. Samtals geri þetta 454 milljónir króna. Vitað sé að stærsti hluti þessara fyrirtækja er ekki í rekstri eða hálfdauð þannig að þessar aðgerðir eru tilgangslausar með öllu.

Segir Benedikt að opinber birting á ársskýrslum hafi nákvæmlega ekkert með skattheimtu eða skatteftirlit að gera og því sé það sóun á kröftum skattyfirvalda að fela þeim þetta verkefni. Rétt sé að minna á að nú þegar skili öll fyrirtæki ítarlegum ársreikningi með skattframtali sínu. Yfirvöld hafi þar allar upplýsingar sem þau þarfnist til að tryggja rétt skattskil.

Mælir Benedikt með því að sett verði ný lög um ársreikninga, sem taki mið af evrópskum viðmiðum um stærðarmörk í þessum skilningi. Í reglum ESB eru teljast þau fyrirtæki lítil sem eru með undir þrjá milljarða króna í eignir og rekstrartekjur undir sex milljörðum. Hér á landi eru viðmiðin 575 milljónir króna í eignir og 1.150 milljónir í rekstrartekjur. Vill hann að evrópsku viðmiðin verði sett í lög og að öll fyrirtæki undir þeim verði alfarið undanþegin opinberri birtingu ársreikninga.