Benoit Chéron hefur hafið störf á ráðgjafarsviði KPMG þar sem hann mun sjá um og þróa þjónustu er tengist sjálfbærni og jafnframt veita ráðgjöf á sviði ábyrgra fjárfestinga, áhættustýringar og innri endurskoðunar. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Benoit er franskur og sótti sína menntun í Dauphine University í París þaðan sem hann lauk meistaragráðu í "Banking, Finance and Insurance". Árið 2018 ákváðu hann og konan hans að breyta til og flytja til Íslands vegna mikils áhuga á landi og þjóð. Þau fluttu búferlum til Íslands ásamt þremur börnum sínum eftir að hafa búið í 16 ár í Lúxemborg og París.

Áður en Benoit hóf störf hjá KPMG þá stofnaði hann fyrirtækið X.FIN, fjármála- og fyrirtækjaráðgjöf og aðstoðaði fjármálastofnanir og -fyrirtæki í ábyrgum fjárfestingum og skýrslugjöf samkvæmt UFS (e. ESG). Hann hefur mikla reynslu sem fjármálastjóri auk þess að hafa starfað hjá tveimur fagfjárfestingarsjóðum í Lúxemborg.

Á meðan Benoit starfaði í Lúxemborg þá var hann m.a. fjármálastjóri og einn af eigendum idi Emerging Markets , fjármálafyrirtæki sem sérhæfir sig í framtaksfjárfestingum á nýjum mörkuðum. Hann starfaði einnig sem yfirmaður PAI Partners skrifstofunnar í Lúxemborg en PAI er leiðandi fjármálafyrirtæki á evrópskum markaði í framtaksfjárfestingum.

Benoit var stjórnarmaður í félagi framtaks- og áhættufjárfestinga í Lúxemborg (e. LPEA) og formaður í reikningshalds- og matsnefndar félagsins í 7 ár.

„Það er mikill fengur fyrir  KPMG að hafa fengið Benoit til liðs við okkur þar sem sífellt stærri hópur viðskiptavina okkar vilja aðlaga stefnu og starfsemi sína að málefnum er tengjast sjálfbærni. Félögin vilja með þessu móti sýna ábyrgð og leggja sitt af mörkum til að stuðla að betri framtíð en jafnframt sjá hag sinn bættan með innleiðingu á slíkri stefnu. Með ráðningu á Benoit tökum við mikilvægt skref í að vera í farabroddi í ráðgjöf á þessu sviði hér á landi,“ segir Helga Harðardóttir, meðeigandi á ráðgjafarsviði.