Dægurverð á 95 oktana bensíni lækkaði um 3% á markaði í Rotterdam í gær samkvæmt upplýsingum á vef Financial Times. Við lok viðskipta kostaði tonnið 1.003 dali og hafði þá lækkað um 31 dal frá deginum áður. Margt bendir því til þess að bensínverð fari niður fyrir 1.000 dala markið á ný en þar hefur það aðeins verið einu sinni frá því um miðjan mars. Það sem af er degi hefur heimsmarkaðsverð á olíu lækkað um 1% og verð á framvirkum samningum með 95 oktana bensín á markaði í New York hefur lækkað um 0,6% það sem af er degi.